Baldvin Már Kristjánsson, lögmaður hjá Delikt lögmönnum, er verjandi annars lögmanns sem var handtekinn á þriðjudag í síðustu viku og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Héraðsdómur Norðurlands eystra framlengdi gæsluvarðhald yfir honum í gær.
Baldvin Már segir í samtali við fréttastofu að úrskurður héraðsdóms hafi verið kærður til Landsréttar. Erfitt sé að segja til um það hvenær niðurstaða Landsréttar muni liggja fyrir.
Neitar staðfastlega sök
„Eðli máls samkvæmt fer ekki vel um neinn í gæsluvarðhaldi,“ segir hann. Umbjóðandi hans hafi staðfastlega neitað sök hvað allar sakargiftir málsins varðar.
Líkt og kom fram í tilkynningu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra í gær er lögmaðurinn grunaður um skipulagða brotastarfsemi sem felst í skipulagðri starfsemi sem felst í að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins, peningaþvætti og fíkniefnamisferli.
Aðfinnsluvert að lögreglan hafi stigið fram
„Mér persónulega finnst það aðfinnsluvert að lögreglan hafi stigið fram að fyrra bragði og hafið opinbera umfjöllun um mál sem er væntanlega á frumstigi rannsóknar,“ segir Baldvin Már.
Þá segir hann að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem lögmaður er úrskurðaður í gæsluvarðhald.
„Ég þekki til að minnsta kosti tveggja mála þar sem lögmenn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Svo eftir því sem rannsókn málsins vindur fram, þá leiðir það til þess að lögregla fellir málið niður á síðari stigum. Við teljum að það verði niðurstaðan í máli þessu.“