Arfleifð og persóna Stepans Bandera eru afar umdeild í Úkraínu. Sumir Úkraínumenn, aðallega í vesturhluta landsins, líta á hann sem þjóðhetju sem lét lífið fyrir sjálfstæðisbaráttu landsins, en í austurhluta Úkraínu, í Póllandi, Rússlandi og Ísrael er hans fyrst og fremst minnst sem samstarfsmannsnasista, sem fjöldamorðingja og sem stríðsglæpamanns.
Bandera fæddist íGalisíu, sem er í dag í vesturhluta Úkraínu en var þá hluti afausturrísk-ungverska keisaradæminu.[3] Hann vildi nema við Tækni- og hagfræðiskólann íPoděbrady, sem var þá íTékkóslóvakíu, en pólsk yfirvöld neituðu honum um ferðapassa þangað. Bandera hlaut því menntun í landbúnaðarfræði íLwów (nú Lvív).
Á námsárum Bandera í Lwów, sem þá var hluti af Póllandi, hóf Bandera þátttöku í pólitísku starfi úkraínskra sjálfstæðissinna. Árið 1934 var forystaSamtaka úkraínskra þjóðernissinna (OÚN) handtekin vegna þátttöku í morðinu á pólska innanríkisráðherranumBronisław Pieracki. Bandera var dæmdur til dauða en dómurinn var síðan mildaður í lífstíðarfangelsi. Eftir aðÞjóðverjar ogSovétmenn gerðu sameiginlegainnrás í Pólland í september 1939 misstu pólsk yfirvöld stjórnina og Bandera slapp úr fangelsi. Hann hélt áfram baráttu sinni fyrir sjálfstæði Úkraínu með OÚN.
Þegar Þjóðverjar gerðuinnrás í Sovétríkin þann 22. júní 1941 stóðu Bandera og OÚN fyrir skemmdarverkastarfsemi innan Sovétríkjanna til að aðstoða framrás Þjóðverja. Bandera komst hins vegar upp á kant við þýska hernámsliðið þegar OÚN gaf út yfirlýsingu um endurreisn sjálfstæðis Úkraínu þann 30. júní. Liðsmenn OÚN stóðu fyrir ofbeldishrinu gegn Gyðingum og Pólverjum samhliða yfirlýsingunni.[4][5] Þjóðverjar höfðu ekki hug á því að Úkraína yrði sjálfstætt ríki og því handtóku þeir Bandera þann 6. júlí.[3] Eftir handtökuna var Bandera sendur til dvalar íSachsenhausen-fangabúðunum og dvaldi þar til september 1944.
Þegarrauði herinn hafði snúið vörn í sókn gegn Þjóðverjum og endurheimt stjórn í austurhluta Úkraínu árið 1944 létu Þjóðverjar sleppa Bandera úr haldi í von um að OÚN gætu hjálpað til við að hindra framsókn Sovétmanna. Bandera var því frjáls sinna ferða í september og kom sér upp höfuðstöðvum íBerlín til að hafa umsjón með þjálfun úkraínskra uppreisnarhermanna sem áttu að heyjaskæruhernað á bak við varnarlínur Sovétmanna.[3]
Eftirseinni heimsstyrjöldina endurstofnaði Bandera samtök sín, OÚN-B, með aðstoð bresku leyniþjónustunnarMI6.[6] Hann fékk hins vegar ekki að snúa heim tilúkraínska sovétlýðveldisins til að halda áfram baráttu gegn sovéskum stjórnvöldum.
Bandera var myrtur íMünchen þann 15. október árið 1959 þegar sovéskur launmorðingi,Bohdan Stasjynskyj, byrlaði honumblásýru.[3] Stasjynskyj gekkst síðar við morðinu á Bandera og á öðrum svipuðum launmorðum. Morðið var skipað af þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna,Níkíta Khrústsjov.[7]
Stytta af Stepan Bandera íTernopíl í vesturhluta Úkraínu. Minnismerkið var afhjúpað árið 2008 í tilefni af hundrað ára afmæli Bandera næsta ár.
Árið 2010 létVíktor Júsjtsjenko, þáverandi forseti Úkraínu, sæma Bandera titlinum „hetju Úkraínu“ (Герой України).[3] Eftirmaður Júsjtsjenko,Víktor Janúkovytsj, sem tók við embætti síðar sama ár, lét ógilda veitingu titilsins á þeim grundvelli að Bandera hefði aldrei haft úkraínskan ríkisborgararétt.[8] Veiting heiðurstitilsins var afar umdeild og var harðlega gagnrýnd af Póllandi, Rússlandi, félagasamtökum Gyðinga og afSimon Wiesenthal-miðstöðinni.[9][10][11]
Árið 2018 tók úkraínska þingið til umfjöllunar tillögu um að sæma Bandera aftur titli „hetju Úkraínu“. Tillagan var felld á þingi þegar kosið var um hana í ágúst 2019.[12]