Dómitíanusi er í heimildum lýst sem grimmum harðstjóra, höldnum ofsóknaræði og er af þeim sökum stundum talinn til hinna svonefndubrjáluðu keisara (andstætt t.d. hinum svonefndugóðu keisurum).
Vespasíanus var farsæll stjórnmálamaður og hershöfðingi í keisaratíðNerós. Árið66 var Vespasíanus sendur, ásamt Títusi, til Júdeu að kveða niður uppreisn á svæðinu. Þeir voru enn í Júdeu árið68 þegar Neró framdi sjálfsmorð. Árið eftir tryggði Vespasíanus sér svo keisaratignina í borgarastríði sem er þekkt semár keisaranna fjögurra. Hann hafði þá stuðning herdeilda í Júdeu og Egyptalandi og hélt til Rómar. Dómitíanus var hins vegar í Róm og var settur í stofufangelsi afVitelliusi, sem einnig barðist um að verða keisari, en náði að flýja úr höndum hans eftir að Vespasíanus hafði sigrað Vitellius í bardaga. Eftir það var Dómitíanus hylltur sem Titus Flavius Caesar Domitianus.
Í stjórnartíð Vespasíanusar fékk Dómitíanus, ólíkt Títusi, fá tækifæri til að sanna sig sem stjórnmálamaður eða hershöfðingi og þó hann hafi nokkrum sinnum fengið embætti konsúls var hann alltaf mun valdaminni en Títus. Þegar Vespasíanus dó árið79 varð Títus keisari og Dómitíanus var áfram valdalítill.
Títus lést svo skyndilega eftir aðeins tvö ár á keisarastóli og var Dómitíanus þá hylltur sem keisari af öldungaráðinu. Sagnaritarar fornaldar tengdu margir Dómitíanus við dauða Títusar og sökuðu hann um að hafa lagt á ráðin um morð, en það er þó ekki talið áreiðanlegt þar sem heimildirnar eru margar mjög hlutdrægar gegn Dómitíanusi.
Dómitíanus færði stjórn Rómaveldis nær því að vera einræði en fyrri keisarar höfðu gert og völd öldungaráðsins minnkuðu til muna í stjórnartíð hans, m.a. vegna þess að hann eyddi miklum tíma utan Rómar og hafði því minni samskipti við valdamenn í borginni en fyrri keisarar höfðu haft. Einnig stóð hann fyrir efnahagsumbótum og jók verðgildi mynntarinnar með því að auka silfurmagn í henni. Það fjármagnaði hann með strangri stefnu í skattheimtu. Einnig hélt hann áfram endurbyggingu Rómar eftir brunann mikla árið64. Á meðal þess sem hann lét byggja var Flavíska höllin á Palatín hæð og hann lét klára bygginguColosseum, þótt það hafi reyndar verið opnað í valdatíð Títusar.
Í stjórnartíð Dómitíanusar var yfirráðasvæði Rómverja áBretlandi stækkað undir stjórn hershöfðingjans Gnaeusar Juliusar Agricola. Agricola fór í herferð norður til Caledoniu (Skotland) þar sem hann sigraði stóran her Caledona í bardaga árið83 eða84. Stór hluti hers Caledona náði þó að flýja og Agricola tókst ekki að leggja svæðið undir sig. Stuttu síðar var hann kallaður heim til Rómar og Dómitíanus fyrirskipaði herdeildum að hörfa úr Caledoniu. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir síðari tíma keisara náðu Rómverjar aldrei að leggja svæðið undir sig.
Dómitíanus barðist einnig viðDecebalus, konung í Daciu. Dacia var konungsríki norðanDónár og hafði Decebalus ráðist inn í svæði Rómverja sunnan Dónár. Her Decebalusar var hrakinn aftur norður yfir ánna en herleiðangur rómversks hers inn í Daciu var misheppnaður og því var samið um frið árið89. Dómitíanus lét einnig styrkja varnir á landamærum Rómaveldis viðRín með því að láta byggja virki og varðturna á stóru svæði sem kallað var Limes Germanicus.
Dómitíanus var myrtur árið96 í samsæri nokkurra starfsmanna hirðar hans. Einn starfsmannanna,Marcus Cocceius Nerva, var í kjölfarið hylltur sem keisari af öldungaráðinu.